25.5.09

Hræðslan við jafnrétti

Í íslensku samfélagi virðast flestir sammála um að allir eigi skilið sömu laun fyrir sömu vinnu. Það viðurkennir enginn að sér finnist sumar konur eiga heimilisofbeldi og misnotkun skilið. Öllum þætti fásinna ef sett væru lög sem myndu tryggja karlmönnum alræði í því þjóðfélagi sem við búum í. Hvar sem spurninguna ber á góma virðast flestir sammála um að karlar og konur séu jöfn að vígi.

Því er ekki að undra að fólk spyrji sig hvers vegna fullkomnu jafnrétti sé ekki náð. Svarið er ekki að um tilviljun sé að ræða, né að við höfum öll rangt fyrir okkur og í raun séu karlar hæfari en konur. Svarið er að þrátt fyrir að flestir vilji jafnrétti eru afskaplega fáir tilbúnir til að knýja það fram. Bláeygt stendur fólk og bíður eftir því að kraftaverk gerist. Ef það er eitthvað sem við ættum öll að hafa lært er það að hlutirnir gerast ekki af sjálfu sér. Þess vegna eru þær háværu raddir nauðsynlegar sem benda á óréttlæti og að enn ríki feðraveldið með valdasprota gerðan úr einhverju allt öðru en gulli.

Það er engum blöðum um það að fletta að sú vinstristjórn sem nú situr við stjórnvölinn er söguleg. Það er líka sögulegt að í fyrsta sinn sitja tveir flokkar saman sem halda merkjum feminismans á lofti. Þessir tveir flokkar hafa í sinni stefnuskrá gríðarlega mikilvæg atriði sem stuðla að jafnrétti og kvenfrelsi. Það er því skýr krafa kjósenda þessara flokka að þeir standi við stóru orðin, sem í nútíma samfélagi ættu að vera sjálfsögð, og skipi jafnt í opinber störf. Jafnrétti verður ekki náð nema við knýjum fram viðhorfsbreytingu og gerum jafnrétti að sjálfsögðum, rótgrónum hlut.

Því miður láðist ríkisstjórninni að fylgja stefnu sinni í fyrsta verkefninu þegar skipa átti nýja stjórn. Í samstarfsyfirlýsingu flokkanna tveggja segir: „Áhrif kvenna í endurreisninni verði tryggð. Því mun ríkisstjórnin beita sér fyrir því að jafna hlutfall kynjanna á öllum sviðum samfélagsins og grípa til sértækra aðgerða sé þess þörf“. Svo virðist sem möguleg hræðsla við hinar sértæku aðgerðir hafi sett hindrun sem er svo áþreifanleg að stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar skjálfa, hvort sem er af hræðslu eða bræði. Fjölmargar raddir hafa kveðið að á tímum sem þessum verði þeir hæfari að fara fram fyrir röðina. Ég trúi því að fyrir hverja þrjá hæfa karla séu þrjár hæfar konur. Konur sem hafa sérfræðimenntun og láta aldrei traðka á sér.

Sértækar aðgerðir er það sem hefur fleytt okkur áfram í baráttu kynjanna. Það eru þær sem feðraveldið og afturhaldssinnar hræðast mest. Við munum aldrei ná fram jafnrétti nema við bítum á jaxlinn og setjum höfuðið undir okkur. Það verður mótvindur á leiðinni en aldrei hefur hann stoppað góðan málstað og baráttuanda. Já ég þori, get og vil.

Greinin birtist á Vinstri þann 23. maí 2009

11.5.09

Kapitalisminn sem mér er kenndur í sögu 203



Capitalism

We rule you
We fool you
We shoot you
We eat for you
We feed all We work for all

24.4.09

enn af mútum

Á seinustum vikum hafa Tryggvi Þór, hinn klóki höndlari amerískra undirmálslána hjá Aski Capital, og Bjarni Benediktsson, nýkosinn skiptastjóri þrotabús Sjálfstæðisflokksins, annað slagið migið út í þær óráðshugmyndir Framsóknarmanna að afskrifa skuldir manna og fyrirtækja um 20% Trúlegast vegna þess að þá skortir hugmyndaflug til að finna upp nýstárlegri mútur. Oft er það svo að mútur endurspegla oft álit stjórnmálamanna á gáfnafari kjósenda – man einhver eftir ávísunum sem Sjálfstæðismönnum í Mosfellsbæ (eða var það í Kópavogi?) hugkvæmdist að senda bæjarbúum korteri eða svo fyrir seinustu sveitastjórnarkosningar? Öllu gagnsærri verða múturnar tæpast.

Loforð sem stjórnmálamenn telja bjánaheld hafa oft gagnast óprúttnum pólitíkusum í gylliboðadembunni fyrir kosningar. Þetta eru kaldrifjuð yfirboð sem stighækka eftir því sem nær dregur kosningum. Í flestum tilvikum dæma þær þó sig sjálfar, kjósendamúturnar sem stjórnmálamenn kasta út úr orrustuflugvélum sínum einsog karamellum fyrir barnaskara á jörðu niðri. 20% hugmyndin, sem á rætur að rekja til 100% örvæntingar Framsóknarmanna, fellur í þann flokk án vafa. Þau skuldum vöfðu fyrirtæki sem formenn umræddra flokka tengjast myndu þó án efa fagna framkvæmd slíkra hugmynda. Fólkið í landinu, sem fengi málamyndaupphæð í annan vasann sem væri síðan jafnskjótt tekin úr hinum vasa þess, myndi hins vegar ekki fagna lengi.

Aðrar mútur hafa þó skyggt á kjósendamúturnar að undanförnu, þ.e. mútur þær sem Sjálfstæðisflokkurinn annars vegar og einstakir þingmenn hans hins vegar, hafa þegið á undangegnum misserum undir því yfirskini að um væri að ræða saklausa styrki. Það er ekkert saklaust við gjafir upp á milljónir eða milljónir tuga. Og í tilvikum einstaklinganna er ekki verið að tala um fáeina hundrað þúsund kalla heldur fleiri milljónir króna. Guðlaugur Þór stakk 4 milljónum frá FL Group og Baugi ofan í vasann á prófkjörsjakkanum sínum. Fáeinir þingmenn Samfylkingar hafa illu heilli látist freistast einnig. Steinunn Valdís stakk 4 milljónum frá FL Group og Baugi ofan í prófkjörsveskið sitt. Heiðarlegt fólk hlýtur að gera þá skýlausu kröfu að þessir menn og konur segi af sér, þ.e. víki strax af framboðslistum flokkanna, og endurgreiði styrkina hið fyrsta á núvirði. Ekki bara til að vinna flokkum sínum ekki meira ógagn en raun ber vitni, heldur í þágu þess vandaða siðferðis sem verður að ríkja í íslenskum stjórnmálum ætli þau að öðlast tiltrú kjósenda að nýju. Þingmenn sem þiggja milljónir frá fyrirtækjum sem hafa hagsmuna að gæta á Alþingi eiga að fást við önnur störf. Og fara á námskeið í siðfræði.

22.4.09

Skattagrýlan vs. Græðgisgrýlan?

Í tilefni af tilefnislausu væli sjálfstæðismannabirti ég hér textabút eftir Hrekkjusvínin. Textinn fjallar um hina raunverulegu grýlu sem var svo gráðug að að lokum átti hún hvorki vott né þurrt. Þá tók hún sig til og rólaði af öllum kröftum í hæstu hæðir uns hún flaug uppá Esju. Þar veslaðist hún upp og dó. Okkur til mikillar ánægju:

Nú er hún Grýla dauð.
Hún gafst upp á að róla sér á róluvöllunum
Það vildi enginn gefa henni brauð
og hún fékk engan frið fyrir öskuköllunum.

Sem tæma allar öskutunnur
svo tómur er Grýlumunnur
sem tæma allar öskutunnur
svo Grýla fær ekki neitt.

Á endanum hún tók til bragðs að róla endalaust
af öllum kröftum hærra en nokkur má.
Og þegar hún var komin ofsa, ofsa hraða á
Sleppti'hún taki og þaut um loftin blá.

Grýla hún lenti'uppi'á Esju
Og síðan er hún bara til í barnabókunum.
Líka í leiðurum blaða
til að hræða fólk frá hærri og meiri kaupkröfum.

En Grýla gamla'er steindauð
og Leppalúði líka.
Krakkar og öskukallar
ráku þau á braut.

19.4.09

Ræða á öfgafeministakvöldi - Um Brjóst

Brjóst hafa verið mannkyninu mjög hugleikin. Brjóst eru lífæð ungbarna, Brjóst spila stóra rullu í kynþroska kvenna og Brjóst eru ofarlega í huga gagnkynhneigðra karlmanna og lesbía. Þetta fullyrði ég því ég hef verið allt ofangreint, ja nema gagnkynhneigður karlmaður.
Skáld hafa ort um Brjóst sem segulmagnaðan hlut. Hvernig lúkur laðast að fullþroska Brjóstum og geta vart hamið sig í snertingum. Ég velti fyrir mér hvað sé svona merkilegt við Brjóst.
Wikipedia útskýrir Brjóst á ákaflega tæknilegan máta: "Brjóst á við um það svæði sem er ofarlega á Brjóst-kassa margra spendýra. Í daglegu tali er þó oftast átt við Brjóst kvenna. Konur hafa almennt stærri Brjóst en karlar þar sem í þeim safnast fyrir meiri fita."
Á vef DV er aftur á móti töluvert smekklausari lýsing á Brjóstum leikkonu sem eitt sinn var fræg: "Þangað mætti hún í flegnum og fjólubláum kjól og vöktu Brjóst hennar mikla athygli, ekki þó fyrir kynþokka heldur lítið umfang. Varð mönnum á orði að eftir að Tori grenntist svona mikið litu Brjóst hennar út eins og litlir sniglar sem hafa sloppið út úr skelinni og stikna hægt og rólega í sólinni"
Hvorug lýsingin svarar spurningu minni. Ég neita að trúa því að aukin fitumyndun sé það sem gerir mig að konu. Nei það hlýtur að vera eitthvað stórfenglegra en það því konur með stjór Brjóst eru ekki meiri konur en þær sem eru með lítil. Það eru ekki Brjóstin sem hafa kallað yfir mig ójöfnuð og gera það að verkum að ég stend í eilífri baráttu um réttindi mín og kjör. Það er ekki til sú stærðfræðiformúla sem segir að einstaklingur sem er fær um að fæða og næra aðra með líkamanum einum saman sé ekki jafn fær um önnur störf.
Þegar hópur kvenna í Svíþjóð barðist fyrir því að fá að synda topplausar gáfu þær út yfirlýsingu þess efnis að þær vildu Brjóst sín jafn kynlaus og Brjóst karlmanna. Þetta þykir mér rangt. Brjóst eru ekki kynlaus, þau eru falleg og þau eru segulmögnuð. Það var ekki klámið sem bjó til langanir fólks til að snerta og horfa á Brjóst kvenna. Hinsvegar er það hræðsla við hömluleysi sem býr til fáránlegar reglur þess efnis að konur megi ekki sýna Brjóst sín.. Og líklega er síðasta setning illa orðuð.. Konur sem kjósa að vera topplausar í sundi eru nefnilega ekki að sýna Brjóst sín, þær eru að nýta frelsi sitt til að koma fram og klæða sig eftir eigin hentisemi. Þvert á þær reglur sem karlmenn hafa sett.
Það er í raun hallærislega sjálfselskt að halda að konur syndi topplausar eða klæðist flegnu til yndisauka karlmanna. Að þeir þurfi að semja reglur þess efnis að Brjóst-betra kynið skuli hylja sig undir því yfirskini að þær haldi sjálfsvirðingu er öfugmæli. Það er nefnilega eitthvað bogið við það að ekki sé hægt að bera virðingu fyrir fegurð. O ég fæ ekki nóg af því að segja þetta, Brjóst eru falleg.
Hættum að hræðast álit annarra á okkur. Berum höfuðið og Brjóstin hátt!

18.4.09

Mútuþægu kjölturakkarnir

Í árslok 2006, fáeinum augnablikum áður en lög tóku gildi sem komu í veg fyrir óeðlilega háa styrki til stjórnmálaflokka, höfðu forsvarsmenn í Sjálfstæðisflokknum frumkvæði að því að betla út metupphæðir hjá útrásarvíkingum í FL-Group og Landsbankanum. Alls skiptu 60 milljónir um eigendur. Stuttu síðar stofnuðu þessi fyrirtæki orkufyrirtæki sem höfðu sama ógeðfellda markmið; nýta þekkingu opinberra orkufyrirtæki, Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjun, til að græða stórfé í eigin þágu. Maðurinn sem sóttist eftir styrkjunum var stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur. Hann heitir Guðlaugur Þór og situr í efsta sæti lista Sjálfstæðismanna í öðru kjördæmanna í Reykjavík.

Það er athyglisvert að viðbrögð Sjálfstæðismanna á sínum tíma endurspegla viðhorf þeirra gagnvart mútum frá fyrirtækjum. Þeir veita styrkjunum viðtöku, þeir kvitta fyrir, þeir samþykkja reikninga flokksins, þeir byrja að spandera blóðpeningunum. Þeir áttu bersýnilega aldrei von á að þurfa að standa reikningsskil gjörða sinna, aldrei átt von á að málið kæmi í bakið á þeim. Hvers vegna? Jú, því að þannig hafa kaupin gerst á eyrinni áratugum saman. Þetta var “business as usual.” Vandlæting þeirra þegar ljóstrað er upp um styrkina var því ekki beinlínis trúverðug og ekki heldur hvernig þeir tóku á málunum. Enginn núverandi forsvarsmaður flokksins, þar á meðal Guðlaugur, hefur sætt ábyrgð.

Og ekki er það stórmannlegt af forkólfum flokksins að láta sinn fyrrum leiðtoga, rúinn völdum og trausti þjóðarinnar, sitjandi í gapandi náttsloppnum á sjúkrabeði í Hollandi, axla alla ábyrgð á móttöku þessara mútugreiðsla. Enginn trúir því að aðrir æðstu ráðamenn flokksins hafi ekki vitað um greiðslur upp á fleiri tugir milljóna, einkum frá jafn umdeildum aðilum og t.d. FL-Group var. Þorgerður Katrín hefur verið varaformaður síðan 2005. Bjarni hefur verið þingmaður síðan 2003 og strax mjög invíklaður í innsta hring flokksins.

Sjálfstæðisflokkurinn kveðst ætla að skila þessum peningum, samtals 55 milljónum frá þessum tveimur aðilum (því að þeir vilja draga frá 5 milljónir frá Landsbanka af einhverjum óskiljanlegum ástæðum). Þá væntanlega til þrotabúanna – ekki nema þeir ætli að senda ávísanirnar rakleiðis til Hannesar Smárasonar og Björgólfs Thors ... En þá hljóta þeir – þessi flokkur hvers meðlimir hafa ávallt lagt áherslu á að ávaxta skuli fé og ekkert sé fé án hirðis o.s.frv – að greiða upphæðina framreiknaða til dagsins í dag, því annars hefur hún rýrnað verulega í höndum flokksins.

55 milljónir í árslok 2006 eru um 70 milljónir á núvirði. Þá er ekki tekið tillit til neinna vaxta og er auðvitað spurning hvort að ekki ætti að bæta a.m.k. við almennum markaðsvöxtum. Þá er upphæðin á áttunda tug milljóna sem þeim ber að endurgreiða. Og eiga þeir innistæðu fyrir því? Krafan hlýtur að vera sú að þeir greiði mútupeningana fyrir kosningar, til að kjósendur sjái að þeir standi við loforð sín – því að dæmin sanna að loforð og efndir fara ekki alltaf saman hjá forystumönnum Sjálfstæðisflokksins. Og auðvitað væri frekar við hæfi að það fé færi til fólksins sem átján ára valdaseta sjálfstæðismanna bitnaði mest á, hinum verst settu í samfélaginu. Milljónatugirnir – 80 samkvæmt því sem ofan segir – gætu t.d. skipst jafnt á milli Mæðrastyrksnefndar, Hjálparstofnunar kirkjunnar og Fjölskylduhjálparinnar. Þar gera peningarnir meira gagn en í vösum lögfræðinganna sem skipta nú þrotabúunum.

Varðandi Landsbankann. Bankinn greiddi flokknum 30 milljónir króna úr sjóðum sínum, þ.e. sjóðum almenningshlutafélags, sem menn hafa bent á að sé kolólöglegt. Þiggjandi styrksins ólöglega og ósiðlega, þáverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, Kjartan Gunnarsson, var jafnframt varaformaður bankaráðs Landsbankans. Kjartan segist ekkert vita um þessi mál þó svo að fram komi á vef Sjálfstæðisflokksins, þar sem fjallað er um sögu hans: "Lét Kjartan Gunnarsson af starfi framkvæmdastjóra um áramótin 2006/2007 eftir 26 farsæl ár í því starfi og við tók Andri Óttarsson." Já víst var viðskilnaðurinn farsæll, 60 milljónir komnar í hús til að stoppa í skuldagöt flokksins.

Mútuþægi klíkuflokkurinn hefur loks verið sannanlega afhjúpaður sem slíkur og það á besta tíma. Ísland var valið það land í Evrópu fyrir nokkrum misserum þar sem minnsta spillingin ríkti. Hverjir í ósköpunum létu aðstandendur þeirrar rannsóknar fá gögn? Kannski Sjálfstæðismenn?


Greinin birtist á Smugunni laugardaginn 18. apríl

16.4.09

Siglum fleyinu saman í átt að jöfnuði

Eftir margra vikna uppreisn fólksins í landinu steig ríkisstjórnin loks af sínum háa stalli. Það gerði hún ekki vegna iðrunar né vegna þess að hún teldi sínum tíma lokið. Ríkisstjórnin vék vegna uppgjafar. Hún gafst upp fyrir lýðræðinu. Og þann dag dró ég andann í fyrsta sinn laus undan oki kapteins blinduðum af hugmyndafræði frjálshyggjunnar.

Orðið frelsi hefur verið sjálfstæðismönnum hugleikið, við eigum að stunda frjálsan markað með frjálsri samkeppni. En það frelsi sem hugmyndafræðin stendur fyrir bitnar á þeim sem minnst mega sín. Sú stéttaskipting, sem frjálshyggjan stuðlar að, er sorgleg. Stuttbuxnadrengirnir virðast kæra sig kollótta um kjör annarra á meðan þeim tekst að græða á daginn og grilla á kvöldin. Ef við ætlum að taka virkan þátt í samfélagi eiga græðgi og óhóf ekki rétt á sér, okkar frelsi á ekki að bitna á frelsi annarra.

Sú ríkisstjórn sem hefur starfað síðastliðna tvo mánuði hefur unnið gríðarlega öflugt verk. Þrátt fyrir mótbárur og málþóf sjálfstæðismanna hafa mörg brýn mál verið afgreidd og ber þar að nefna fjárveitingu til menntamála sem minnka á atvinnuleysi háskólanema. Það borgar sig margfalt fyrir ríkið að veita námslán og auka þekkingu landans í stað þess að dæla út fjármagni til atvinnuleysisbóta. Hvert mannsbarn á að eiga jafnan rétt á menntun óháð efnahag og stöðu. Sú ríkisstjórn sem nú situr stuðlar að þeim jöfnuði. Ríkið á og getur komið til móts við heimilin með þeim hætti að börn og ungt fólk þurfi ekki að finna of mikið fyrir afleiðingum dauðafyllerís drengjanna í næsta húsi. Fyllerí sem kostar þúsundir starfa og skuldir sem seint verða borgaðar til fulls. Hleypum þeim ekki að stjórnborðinu aftur.

Kjósum þá ríkisstjórn sem tilbúin er að vernda velferðina og styrkja atvinnuveginn með fjölbreyttum hætti. Kjósum jöfnuð ofar eiginhagsmunapólitík og vinavæðingu. Notum okkar atkvæði til að koma á því samfélagi sem við viljum búa í. Samfélag þar sem framtíðarsýn og markmið eru skýr.

Þá getum við loksins verið viss um að skipinu verði ekki stýrt í strand vegna hugsanaleysis. Þá vitum við að réttur okkar er sá sami og þeirra á fyrsta farrými. Með Vinstri græn í ríkisstjórn siglum við fleyginu saman með jöfnuð, velferð og samvinnu að leiðarljósi.


Greinin birtist á www.vinstri.is fimmtudaginn 16. apríl

2.4.09

Guð blessi gleymskuna

Það hrun sem varð í október hefur fætt af sér ýmsa kynlega kvisti. Hvort sem það eru kverúlantar sem telja sig allt vita eða menn sem eru komnir til að fá uppreisn sinnar æru í eitt skipti fyrir öll.
Þjóðin hefur fengið að fylgjast með Ástþóri Magnússyni og Herði Torfasyni kalla sig byltingarhetjur og fyrrum seðlabankastjóra líkja sér við jesú krist.
Þó eru það sérstaklega nokkrir einstaklingar sem vekja mína athygli meira en aðrir, þeir einstaklingar sem sjálfstæðisflokkurinn hefur í forystusveit sinni en reynir þó að fela.
Það hefur löngum verið sagt að Íslendingar séu fljótir að gleyma, það held ég að sé rangt, hinsvegar er það engin lygi að þeir sem kjósa sjálfstæðisflokkinn eru annaðhvort minnislausir eða fylgjast ekki með þeim hræringum sem verða í samfélaginu. Sá heilaþvottur sem beitt hefur verið á einstaklinga nær ekki nokkurri átt. Þrátt fyrir vonbrigði, kjörtímabil eftir kjörtímabil, virðast sumir alltaf merkja x í kolrangan reit. Reit merktum D.

Háværar raddir hafa heyrst sem segja að endurýjunin sé mest í sjálfstæðisflokknum. Meiri þvætting hef ég sjaldan heyrt. Það getur vel verið að margir af þeim sem voru í raun andlit hrunsins hafi vikið úr störfum en það breytir ekki þeim rotnu eplum sem eftir eru eða "koma ný inn".
Eftirfarandi listi geymir nöfn örfárra einstaklinga sem þjóðin getur kosið yfir sig:

Tryggvi Þór Herbertsson skipar annað sæti lista sjálfstæðismanna í Norð-Austurkjördæmi. Hann var aðal flónið á bakvið AskarCapital sem höndlaði eitt íslenskra fjármálafyrirtækja með amerísku undirmálslánin alræmdu og tapaði tugum milljarða. Tryggvi Þór var efnahagsráðgjafi Geirs Hilmars síðustu sex mánuði fyrir hrun og ég tel mig ekki fara með rangt mál þegar ég fullyrði að hann hætti í nóvember á síðasta ári. Komið hefur í ljós að Tryggvi Þór vissi af IceSave dílunum en sagði Geir Hilmari ekki frá.
Í síðustu kosningum fékk sjálfstæðisflokkurinn 3 þingmenn í Norðausturkjördæmi og því telst það mjög líklegt að Tryggvi Þór verði "fulltrúi þjóðarinnar" út næsta kjörtímabil. Guð blessi Ísland.


Þórlindur Kjartansson og Erla Ósk Ásgeirsdóttir markaðssettu IceSave. Þau sitja í 8. og 10. sæti sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Illugi Gunnarsson skipar 1. sæti flokksins í Reykjavík. Hann var stjórnarmaður í sjóð 9 í Glitni. Geir Hilmar vinur minn og Árni Matt gengu úr skugga um að sjóður 9 fengi peninga eftir hrunið svo Illugi fengi ekki blett á kragann sinn. Þess má einmitt geta að Árni Matt, fyrrverandi fjármálaráðherra, var einn af hluthöfum SPH sparisjóðs og græddi stórfé á sölu stofnbréfa í honum. SPH varð seinna annar helmingur BYRS, en eigendur hans skömmtuðu sjálfum sér 13 milljarða arðgreiðslu þegar hrunið blasti við. Nú býður bankinn eftir auka fjárveitingu frá ríkinu. Smotterí sem nemur um 10-15 milljörðum króna.
Sú smásumma dugði einmitt til að kaupa Landsbankann á sínum tíma.

Listinn er ótæmandi og tek ég ábendinum hvaðan sem er ef fleiri fól dúkka upp. Þá fara þau að sjálfsögðu á listann.


Við getum verið stolt af þeim fólum sem langar á þing. Enn eitt heimsmetið í kladdann fyrir Ísland. Flestir spillingargosar miðað við höfðatölu.

13.3.09

Lágkúra

Hægt og bítandi, þegar líður á prófkjöra og kosningabaráttu, finn ég hvernig titringur skekur landann. Það heyrist í tali stjórnmálamanna að örvæntingin er einstök og hugsanahátturinn virðist vera að eiga frekar á hættu að tapa einu atkvæði ef tíu auðtrúa einstaklingar eru tilbúnir að merkja ex í "réttan reit". Það er nefninlega ekki allt gáfulegt sem vellur uppúr misgáfuðum mönnum.

Geir Hilmar, vinur minn, brást ókvæða við þegar Jóhanna Sigurðardóttir tilkynnti að þingið myndi starfa þar til á kosningadeginum sjálfum, 25. apríl. Geir Hilmar kvartaði og kveinaði því hann og hans menn hafa ekki tíma til að standa í kosningabaráttu. Þarna sýnir Geir, maðurinn sem ekki kann að skammast sín, að hann tekur enn sem oftar hag sjálfstæðisflokksins fram yfir hag þjóðarinnar. Ætli honum þyki mikilvægara að gefa candy-floss en að afgreiða mál sem snúa að heimilum og fjölskyldum?

Og misjafn er skrokkurinn í lágkúrunni. Fyrir allar aldir bárust mér fregnir af því að við skólann minn, sem stendur við Hamrahlíð, myndi koma rúta á vegum Sjálfstæðismanns í framboði. Þessi ágæta rúta ætlar að ferja ungmennin á kjörstað svo hægt sé að merkja ex í "réttan reit".

(Fuglahvíslið minntist á bjór eða pizzu.
Alveg get ég rétt ímyndað mér bjór-angandi jafningja mína velta inn á kjörstað með blýantinn í hönd. Lýðræði ekkert kjaftæði)

Ég vona að einn góðan veðurdag læri Geir hin gömlu góðu gildi. Læri að það borgar sig að biðjast afsökunnar. Gróði mælist ekki endilega í krónum.
Ég gleðst yfir því að hafa Jóhönnu Sigurðardóttur, klára konu og hugrakka, sem forsætisráðherra, eða forsætisráðfrú?
Kona sem gerir sér grein fyrir mikilvægi þess að halda í ákveðin siðgæði og sinnir sínu starfi fyrir þjóðina, ekki flokkinn.

6.3.09

Endurnýjunar krafan ekki nógu skýr?

Í gærkvöldi sat ég fund með mörgu góðu fólki. Þar voru helst á ferð frambjóðendur í atkvæðaleit, sumir í ansi örvæntingarfullri.
Eftir nokkrar skýrar ræður sem virtust lítið sem ekkert beinast að þeim frambjóðanda sem sjálfur hélt fundinn steig ég á stokk og fór lauslega yfir endurnýjunarkröfuna. Nú væri tíminn til að koma ungu fólki á þing, miðaldra karlmenn gætu svo sannarlega ekki talað mínu máli. Jafnvel þó við værum skoðanasystkin. Ég minntist á að meðaldaldur flokksins væru 54 ár sem væri skammarlegt.
Orð mín fengu lítinn hljómgrunn. Og ég viðurkenni að svo bláeyg var ég að þegar ég tók til máls datt mér ekki í hug að ég myndi mæta jafn mikilli mótstöðu í jafn litlum hópi.
Eftir á að hyggja var mótspyrnan ekki svo óeðlileg, þeir sex frambjóðendur sem voru mættir til leiks utan þess sem sjálfur hélt fundinn hefðu seint flokkast sem ungir frambjóðendur. Þvert á móti. Ég skil það ágætlega að þeim hafi ég þótt vega að þeim og þeirra möguleikum á kjöri.
Þetta styrkir samt mín atkvæði og hvert ég vil láta þau falla. Frekar kýs ég einstaklinga sem eru ungir, tala mínu máli og ég veit að eru traustir. Mér dettur ekki í hug að kjósa einstaklinga sem ekki skilja að endurnýjunin er nauðsynleg, einstaklinga sem kjósa heldur að koma sjálfum sér að í stað þess að þjóna fólkinu í landinu. Ég fyrirlít einstaklinga sem fara í stjórnmál sem stöðutákn, ekki til að láta gott af sér leiða.
Það kom til mín kona og minntist á ummæli mín um miðaldra karla sem ekki töluðu mínu máli og gætu ekki starfað í mína þágu verandi ekki í sömu stöðu. Hún var fúl. Ég fékk að heyra það að miðaldra karlar gætu svo sannarlega frekar talað máli unga fólksins heldur en það unga að tala máli þeirra miðaldra. Reynsluboltarnir væru nauðsynlegir á þingi því með unga fólkinu kæmi svo mikið ábyrgðarleysi að beinlínis væri vegið að Alþingi sem stofnun. Og um leið þjóðinni sjálfri.

Þessi kona virtist ekki gera sér grein fyrir jöfnuðinum sem ég tel nauðsynlegt að ná. Auðvitað skiptir öllu máli að jöfnu kynjahlutfalli séð náð en ég vil ekki stansa þar. Ég vil sjá fólk úr öllum stéttum og þar kemur unga fólkið sterkt inn.
Þriðjungur Vinstri grænna eru ungliðar. Fólk 30 ára og yngri hefur ákveðinna hagsmuna að gæta sem hálf sjötugir hafa ekki. Það er staðreynd að samfélagið breytist og öldungarnir mættu ekki sömu vandamálum þegar þeir voru yngri.
Góður pólitíkus er sá sem þróast, er tilbúinn að læra meira og bæta sig í hvívetna. Þetta virðist oftar en ekki gleymast. Stjórnmálamenn verða uppfullir af valdi og þeirri staðreynd að þeir komust á "toppinn". Í samfélagi sem er sífellt að þróast og hver kynslóð skapar kaflaskil gengur ekki að sömu menn skipi þingið.
Ég lýsi því hér með yfir að niðurstöður úr forvali Vinstri grænna í Norð-austurkjördæmi hryggja mig mjög. Þar var sýnt að enginn vilji var til endurnýjunnar. Eða hvað?
Litlir fuglar hvísla hátt og í þetta sinn heyrist að flokkurinn sé að bregðast. Frambjóðendur í nokkrum kjördæmum fá ekki flokksskrá síns kjördæmis og geta því ómögulega kynnt sig. Kjördæmin eru gríðarstór og ómögulegt að skipuleggja marga fundi einsamall.
Ég veit fátt ólýðræðislegra en svo að þeir sem hafa áður boðið sig fram hljóti þarna forskot á aðra. Eins og það sé ekki nógu mikið fyrir. Það hefur nefninlega verið í prófkjörum hingað til að frambjóðendur fá flokksskrána og geta því staðið í úthringingum og öðru tilfallandi.
Kunningi minn sem eitt sinn bauð sig fram hér á Höfuðborgarsvæðinu sagði mér að þá hefði hann fengið skrána með því loforði að henni væri eytt eftir prófkjör.
Ég neita að trúa því að allir frambjóðendur séu svo heiðarlegir.
Þeir sem hafa margra ára setu á þingi og staðið sig vel í sínu kjördæmi vita líka hverjir búa þar og hafa sínar breiðfylkingar að baki sér.
Ég krefst lýðræðis af flokknum sem ég treysti best til breytinga. Breytingar verða fyrst og fremst að verða innan frá.
Breytum sjálfum okkur áður en við breytum heiminum. Aðeins þannig náum við framförum.