2.4.09

Guð blessi gleymskuna

Það hrun sem varð í október hefur fætt af sér ýmsa kynlega kvisti. Hvort sem það eru kverúlantar sem telja sig allt vita eða menn sem eru komnir til að fá uppreisn sinnar æru í eitt skipti fyrir öll.
Þjóðin hefur fengið að fylgjast með Ástþóri Magnússyni og Herði Torfasyni kalla sig byltingarhetjur og fyrrum seðlabankastjóra líkja sér við jesú krist.
Þó eru það sérstaklega nokkrir einstaklingar sem vekja mína athygli meira en aðrir, þeir einstaklingar sem sjálfstæðisflokkurinn hefur í forystusveit sinni en reynir þó að fela.
Það hefur löngum verið sagt að Íslendingar séu fljótir að gleyma, það held ég að sé rangt, hinsvegar er það engin lygi að þeir sem kjósa sjálfstæðisflokkinn eru annaðhvort minnislausir eða fylgjast ekki með þeim hræringum sem verða í samfélaginu. Sá heilaþvottur sem beitt hefur verið á einstaklinga nær ekki nokkurri átt. Þrátt fyrir vonbrigði, kjörtímabil eftir kjörtímabil, virðast sumir alltaf merkja x í kolrangan reit. Reit merktum D.

Háværar raddir hafa heyrst sem segja að endurýjunin sé mest í sjálfstæðisflokknum. Meiri þvætting hef ég sjaldan heyrt. Það getur vel verið að margir af þeim sem voru í raun andlit hrunsins hafi vikið úr störfum en það breytir ekki þeim rotnu eplum sem eftir eru eða "koma ný inn".
Eftirfarandi listi geymir nöfn örfárra einstaklinga sem þjóðin getur kosið yfir sig:

Tryggvi Þór Herbertsson skipar annað sæti lista sjálfstæðismanna í Norð-Austurkjördæmi. Hann var aðal flónið á bakvið AskarCapital sem höndlaði eitt íslenskra fjármálafyrirtækja með amerísku undirmálslánin alræmdu og tapaði tugum milljarða. Tryggvi Þór var efnahagsráðgjafi Geirs Hilmars síðustu sex mánuði fyrir hrun og ég tel mig ekki fara með rangt mál þegar ég fullyrði að hann hætti í nóvember á síðasta ári. Komið hefur í ljós að Tryggvi Þór vissi af IceSave dílunum en sagði Geir Hilmari ekki frá.
Í síðustu kosningum fékk sjálfstæðisflokkurinn 3 þingmenn í Norðausturkjördæmi og því telst það mjög líklegt að Tryggvi Þór verði "fulltrúi þjóðarinnar" út næsta kjörtímabil. Guð blessi Ísland.


Þórlindur Kjartansson og Erla Ósk Ásgeirsdóttir markaðssettu IceSave. Þau sitja í 8. og 10. sæti sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Illugi Gunnarsson skipar 1. sæti flokksins í Reykjavík. Hann var stjórnarmaður í sjóð 9 í Glitni. Geir Hilmar vinur minn og Árni Matt gengu úr skugga um að sjóður 9 fengi peninga eftir hrunið svo Illugi fengi ekki blett á kragann sinn. Þess má einmitt geta að Árni Matt, fyrrverandi fjármálaráðherra, var einn af hluthöfum SPH sparisjóðs og græddi stórfé á sölu stofnbréfa í honum. SPH varð seinna annar helmingur BYRS, en eigendur hans skömmtuðu sjálfum sér 13 milljarða arðgreiðslu þegar hrunið blasti við. Nú býður bankinn eftir auka fjárveitingu frá ríkinu. Smotterí sem nemur um 10-15 milljörðum króna.
Sú smásumma dugði einmitt til að kaupa Landsbankann á sínum tíma.

Listinn er ótæmandi og tek ég ábendinum hvaðan sem er ef fleiri fól dúkka upp. Þá fara þau að sjálfsögðu á listann.


Við getum verið stolt af þeim fólum sem langar á þing. Enn eitt heimsmetið í kladdann fyrir Ísland. Flestir spillingargosar miðað við höfðatölu.

1 comment: