6.3.09

Endurnýjunar krafan ekki nógu skýr?

Í gærkvöldi sat ég fund með mörgu góðu fólki. Þar voru helst á ferð frambjóðendur í atkvæðaleit, sumir í ansi örvæntingarfullri.
Eftir nokkrar skýrar ræður sem virtust lítið sem ekkert beinast að þeim frambjóðanda sem sjálfur hélt fundinn steig ég á stokk og fór lauslega yfir endurnýjunarkröfuna. Nú væri tíminn til að koma ungu fólki á þing, miðaldra karlmenn gætu svo sannarlega ekki talað mínu máli. Jafnvel þó við værum skoðanasystkin. Ég minntist á að meðaldaldur flokksins væru 54 ár sem væri skammarlegt.
Orð mín fengu lítinn hljómgrunn. Og ég viðurkenni að svo bláeyg var ég að þegar ég tók til máls datt mér ekki í hug að ég myndi mæta jafn mikilli mótstöðu í jafn litlum hópi.
Eftir á að hyggja var mótspyrnan ekki svo óeðlileg, þeir sex frambjóðendur sem voru mættir til leiks utan þess sem sjálfur hélt fundinn hefðu seint flokkast sem ungir frambjóðendur. Þvert á móti. Ég skil það ágætlega að þeim hafi ég þótt vega að þeim og þeirra möguleikum á kjöri.
Þetta styrkir samt mín atkvæði og hvert ég vil láta þau falla. Frekar kýs ég einstaklinga sem eru ungir, tala mínu máli og ég veit að eru traustir. Mér dettur ekki í hug að kjósa einstaklinga sem ekki skilja að endurnýjunin er nauðsynleg, einstaklinga sem kjósa heldur að koma sjálfum sér að í stað þess að þjóna fólkinu í landinu. Ég fyrirlít einstaklinga sem fara í stjórnmál sem stöðutákn, ekki til að láta gott af sér leiða.
Það kom til mín kona og minntist á ummæli mín um miðaldra karla sem ekki töluðu mínu máli og gætu ekki starfað í mína þágu verandi ekki í sömu stöðu. Hún var fúl. Ég fékk að heyra það að miðaldra karlar gætu svo sannarlega frekar talað máli unga fólksins heldur en það unga að tala máli þeirra miðaldra. Reynsluboltarnir væru nauðsynlegir á þingi því með unga fólkinu kæmi svo mikið ábyrgðarleysi að beinlínis væri vegið að Alþingi sem stofnun. Og um leið þjóðinni sjálfri.

Þessi kona virtist ekki gera sér grein fyrir jöfnuðinum sem ég tel nauðsynlegt að ná. Auðvitað skiptir öllu máli að jöfnu kynjahlutfalli séð náð en ég vil ekki stansa þar. Ég vil sjá fólk úr öllum stéttum og þar kemur unga fólkið sterkt inn.
Þriðjungur Vinstri grænna eru ungliðar. Fólk 30 ára og yngri hefur ákveðinna hagsmuna að gæta sem hálf sjötugir hafa ekki. Það er staðreynd að samfélagið breytist og öldungarnir mættu ekki sömu vandamálum þegar þeir voru yngri.
Góður pólitíkus er sá sem þróast, er tilbúinn að læra meira og bæta sig í hvívetna. Þetta virðist oftar en ekki gleymast. Stjórnmálamenn verða uppfullir af valdi og þeirri staðreynd að þeir komust á "toppinn". Í samfélagi sem er sífellt að þróast og hver kynslóð skapar kaflaskil gengur ekki að sömu menn skipi þingið.
Ég lýsi því hér með yfir að niðurstöður úr forvali Vinstri grænna í Norð-austurkjördæmi hryggja mig mjög. Þar var sýnt að enginn vilji var til endurnýjunnar. Eða hvað?
Litlir fuglar hvísla hátt og í þetta sinn heyrist að flokkurinn sé að bregðast. Frambjóðendur í nokkrum kjördæmum fá ekki flokksskrá síns kjördæmis og geta því ómögulega kynnt sig. Kjördæmin eru gríðarstór og ómögulegt að skipuleggja marga fundi einsamall.
Ég veit fátt ólýðræðislegra en svo að þeir sem hafa áður boðið sig fram hljóti þarna forskot á aðra. Eins og það sé ekki nógu mikið fyrir. Það hefur nefninlega verið í prófkjörum hingað til að frambjóðendur fá flokksskrána og geta því staðið í úthringingum og öðru tilfallandi.
Kunningi minn sem eitt sinn bauð sig fram hér á Höfuðborgarsvæðinu sagði mér að þá hefði hann fengið skrána með því loforði að henni væri eytt eftir prófkjör.
Ég neita að trúa því að allir frambjóðendur séu svo heiðarlegir.
Þeir sem hafa margra ára setu á þingi og staðið sig vel í sínu kjördæmi vita líka hverjir búa þar og hafa sínar breiðfylkingar að baki sér.
Ég krefst lýðræðis af flokknum sem ég treysti best til breytinga. Breytingar verða fyrst og fremst að verða innan frá.
Breytum sjálfum okkur áður en við breytum heiminum. Aðeins þannig náum við framförum.

1 comment:

  1. Flottur pistill Snærós. Eins og talað frá mínu hjarta. Við verðum að koma ungu fólki á þing og þá verðum við að kjósa það í forvölum.
    Bestu baráttukveðjur,
    Hlynur

    ReplyDelete