19.4.09

Ræða á öfgafeministakvöldi - Um Brjóst

Brjóst hafa verið mannkyninu mjög hugleikin. Brjóst eru lífæð ungbarna, Brjóst spila stóra rullu í kynþroska kvenna og Brjóst eru ofarlega í huga gagnkynhneigðra karlmanna og lesbía. Þetta fullyrði ég því ég hef verið allt ofangreint, ja nema gagnkynhneigður karlmaður.
Skáld hafa ort um Brjóst sem segulmagnaðan hlut. Hvernig lúkur laðast að fullþroska Brjóstum og geta vart hamið sig í snertingum. Ég velti fyrir mér hvað sé svona merkilegt við Brjóst.
Wikipedia útskýrir Brjóst á ákaflega tæknilegan máta: "Brjóst á við um það svæði sem er ofarlega á Brjóst-kassa margra spendýra. Í daglegu tali er þó oftast átt við Brjóst kvenna. Konur hafa almennt stærri Brjóst en karlar þar sem í þeim safnast fyrir meiri fita."
Á vef DV er aftur á móti töluvert smekklausari lýsing á Brjóstum leikkonu sem eitt sinn var fræg: "Þangað mætti hún í flegnum og fjólubláum kjól og vöktu Brjóst hennar mikla athygli, ekki þó fyrir kynþokka heldur lítið umfang. Varð mönnum á orði að eftir að Tori grenntist svona mikið litu Brjóst hennar út eins og litlir sniglar sem hafa sloppið út úr skelinni og stikna hægt og rólega í sólinni"
Hvorug lýsingin svarar spurningu minni. Ég neita að trúa því að aukin fitumyndun sé það sem gerir mig að konu. Nei það hlýtur að vera eitthvað stórfenglegra en það því konur með stjór Brjóst eru ekki meiri konur en þær sem eru með lítil. Það eru ekki Brjóstin sem hafa kallað yfir mig ójöfnuð og gera það að verkum að ég stend í eilífri baráttu um réttindi mín og kjör. Það er ekki til sú stærðfræðiformúla sem segir að einstaklingur sem er fær um að fæða og næra aðra með líkamanum einum saman sé ekki jafn fær um önnur störf.
Þegar hópur kvenna í Svíþjóð barðist fyrir því að fá að synda topplausar gáfu þær út yfirlýsingu þess efnis að þær vildu Brjóst sín jafn kynlaus og Brjóst karlmanna. Þetta þykir mér rangt. Brjóst eru ekki kynlaus, þau eru falleg og þau eru segulmögnuð. Það var ekki klámið sem bjó til langanir fólks til að snerta og horfa á Brjóst kvenna. Hinsvegar er það hræðsla við hömluleysi sem býr til fáránlegar reglur þess efnis að konur megi ekki sýna Brjóst sín.. Og líklega er síðasta setning illa orðuð.. Konur sem kjósa að vera topplausar í sundi eru nefnilega ekki að sýna Brjóst sín, þær eru að nýta frelsi sitt til að koma fram og klæða sig eftir eigin hentisemi. Þvert á þær reglur sem karlmenn hafa sett.
Það er í raun hallærislega sjálfselskt að halda að konur syndi topplausar eða klæðist flegnu til yndisauka karlmanna. Að þeir þurfi að semja reglur þess efnis að Brjóst-betra kynið skuli hylja sig undir því yfirskini að þær haldi sjálfsvirðingu er öfugmæli. Það er nefnilega eitthvað bogið við það að ekki sé hægt að bera virðingu fyrir fegurð. O ég fæ ekki nóg af því að segja þetta, Brjóst eru falleg.
Hættum að hræðast álit annarra á okkur. Berum höfuðið og Brjóstin hátt!

No comments:

Post a Comment