18.4.09

Mútuþægu kjölturakkarnir

Í árslok 2006, fáeinum augnablikum áður en lög tóku gildi sem komu í veg fyrir óeðlilega háa styrki til stjórnmálaflokka, höfðu forsvarsmenn í Sjálfstæðisflokknum frumkvæði að því að betla út metupphæðir hjá útrásarvíkingum í FL-Group og Landsbankanum. Alls skiptu 60 milljónir um eigendur. Stuttu síðar stofnuðu þessi fyrirtæki orkufyrirtæki sem höfðu sama ógeðfellda markmið; nýta þekkingu opinberra orkufyrirtæki, Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjun, til að græða stórfé í eigin þágu. Maðurinn sem sóttist eftir styrkjunum var stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur. Hann heitir Guðlaugur Þór og situr í efsta sæti lista Sjálfstæðismanna í öðru kjördæmanna í Reykjavík.

Það er athyglisvert að viðbrögð Sjálfstæðismanna á sínum tíma endurspegla viðhorf þeirra gagnvart mútum frá fyrirtækjum. Þeir veita styrkjunum viðtöku, þeir kvitta fyrir, þeir samþykkja reikninga flokksins, þeir byrja að spandera blóðpeningunum. Þeir áttu bersýnilega aldrei von á að þurfa að standa reikningsskil gjörða sinna, aldrei átt von á að málið kæmi í bakið á þeim. Hvers vegna? Jú, því að þannig hafa kaupin gerst á eyrinni áratugum saman. Þetta var “business as usual.” Vandlæting þeirra þegar ljóstrað er upp um styrkina var því ekki beinlínis trúverðug og ekki heldur hvernig þeir tóku á málunum. Enginn núverandi forsvarsmaður flokksins, þar á meðal Guðlaugur, hefur sætt ábyrgð.

Og ekki er það stórmannlegt af forkólfum flokksins að láta sinn fyrrum leiðtoga, rúinn völdum og trausti þjóðarinnar, sitjandi í gapandi náttsloppnum á sjúkrabeði í Hollandi, axla alla ábyrgð á móttöku þessara mútugreiðsla. Enginn trúir því að aðrir æðstu ráðamenn flokksins hafi ekki vitað um greiðslur upp á fleiri tugir milljóna, einkum frá jafn umdeildum aðilum og t.d. FL-Group var. Þorgerður Katrín hefur verið varaformaður síðan 2005. Bjarni hefur verið þingmaður síðan 2003 og strax mjög invíklaður í innsta hring flokksins.

Sjálfstæðisflokkurinn kveðst ætla að skila þessum peningum, samtals 55 milljónum frá þessum tveimur aðilum (því að þeir vilja draga frá 5 milljónir frá Landsbanka af einhverjum óskiljanlegum ástæðum). Þá væntanlega til þrotabúanna – ekki nema þeir ætli að senda ávísanirnar rakleiðis til Hannesar Smárasonar og Björgólfs Thors ... En þá hljóta þeir – þessi flokkur hvers meðlimir hafa ávallt lagt áherslu á að ávaxta skuli fé og ekkert sé fé án hirðis o.s.frv – að greiða upphæðina framreiknaða til dagsins í dag, því annars hefur hún rýrnað verulega í höndum flokksins.

55 milljónir í árslok 2006 eru um 70 milljónir á núvirði. Þá er ekki tekið tillit til neinna vaxta og er auðvitað spurning hvort að ekki ætti að bæta a.m.k. við almennum markaðsvöxtum. Þá er upphæðin á áttunda tug milljóna sem þeim ber að endurgreiða. Og eiga þeir innistæðu fyrir því? Krafan hlýtur að vera sú að þeir greiði mútupeningana fyrir kosningar, til að kjósendur sjái að þeir standi við loforð sín – því að dæmin sanna að loforð og efndir fara ekki alltaf saman hjá forystumönnum Sjálfstæðisflokksins. Og auðvitað væri frekar við hæfi að það fé færi til fólksins sem átján ára valdaseta sjálfstæðismanna bitnaði mest á, hinum verst settu í samfélaginu. Milljónatugirnir – 80 samkvæmt því sem ofan segir – gætu t.d. skipst jafnt á milli Mæðrastyrksnefndar, Hjálparstofnunar kirkjunnar og Fjölskylduhjálparinnar. Þar gera peningarnir meira gagn en í vösum lögfræðinganna sem skipta nú þrotabúunum.

Varðandi Landsbankann. Bankinn greiddi flokknum 30 milljónir króna úr sjóðum sínum, þ.e. sjóðum almenningshlutafélags, sem menn hafa bent á að sé kolólöglegt. Þiggjandi styrksins ólöglega og ósiðlega, þáverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, Kjartan Gunnarsson, var jafnframt varaformaður bankaráðs Landsbankans. Kjartan segist ekkert vita um þessi mál þó svo að fram komi á vef Sjálfstæðisflokksins, þar sem fjallað er um sögu hans: "Lét Kjartan Gunnarsson af starfi framkvæmdastjóra um áramótin 2006/2007 eftir 26 farsæl ár í því starfi og við tók Andri Óttarsson." Já víst var viðskilnaðurinn farsæll, 60 milljónir komnar í hús til að stoppa í skuldagöt flokksins.

Mútuþægi klíkuflokkurinn hefur loks verið sannanlega afhjúpaður sem slíkur og það á besta tíma. Ísland var valið það land í Evrópu fyrir nokkrum misserum þar sem minnsta spillingin ríkti. Hverjir í ósköpunum létu aðstandendur þeirrar rannsóknar fá gögn? Kannski Sjálfstæðismenn?


Greinin birtist á Smugunni laugardaginn 18. apríl

No comments:

Post a Comment