25.5.09

Hræðslan við jafnrétti

Í íslensku samfélagi virðast flestir sammála um að allir eigi skilið sömu laun fyrir sömu vinnu. Það viðurkennir enginn að sér finnist sumar konur eiga heimilisofbeldi og misnotkun skilið. Öllum þætti fásinna ef sett væru lög sem myndu tryggja karlmönnum alræði í því þjóðfélagi sem við búum í. Hvar sem spurninguna ber á góma virðast flestir sammála um að karlar og konur séu jöfn að vígi.

Því er ekki að undra að fólk spyrji sig hvers vegna fullkomnu jafnrétti sé ekki náð. Svarið er ekki að um tilviljun sé að ræða, né að við höfum öll rangt fyrir okkur og í raun séu karlar hæfari en konur. Svarið er að þrátt fyrir að flestir vilji jafnrétti eru afskaplega fáir tilbúnir til að knýja það fram. Bláeygt stendur fólk og bíður eftir því að kraftaverk gerist. Ef það er eitthvað sem við ættum öll að hafa lært er það að hlutirnir gerast ekki af sjálfu sér. Þess vegna eru þær háværu raddir nauðsynlegar sem benda á óréttlæti og að enn ríki feðraveldið með valdasprota gerðan úr einhverju allt öðru en gulli.

Það er engum blöðum um það að fletta að sú vinstristjórn sem nú situr við stjórnvölinn er söguleg. Það er líka sögulegt að í fyrsta sinn sitja tveir flokkar saman sem halda merkjum feminismans á lofti. Þessir tveir flokkar hafa í sinni stefnuskrá gríðarlega mikilvæg atriði sem stuðla að jafnrétti og kvenfrelsi. Það er því skýr krafa kjósenda þessara flokka að þeir standi við stóru orðin, sem í nútíma samfélagi ættu að vera sjálfsögð, og skipi jafnt í opinber störf. Jafnrétti verður ekki náð nema við knýjum fram viðhorfsbreytingu og gerum jafnrétti að sjálfsögðum, rótgrónum hlut.

Því miður láðist ríkisstjórninni að fylgja stefnu sinni í fyrsta verkefninu þegar skipa átti nýja stjórn. Í samstarfsyfirlýsingu flokkanna tveggja segir: „Áhrif kvenna í endurreisninni verði tryggð. Því mun ríkisstjórnin beita sér fyrir því að jafna hlutfall kynjanna á öllum sviðum samfélagsins og grípa til sértækra aðgerða sé þess þörf“. Svo virðist sem möguleg hræðsla við hinar sértæku aðgerðir hafi sett hindrun sem er svo áþreifanleg að stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar skjálfa, hvort sem er af hræðslu eða bræði. Fjölmargar raddir hafa kveðið að á tímum sem þessum verði þeir hæfari að fara fram fyrir röðina. Ég trúi því að fyrir hverja þrjá hæfa karla séu þrjár hæfar konur. Konur sem hafa sérfræðimenntun og láta aldrei traðka á sér.

Sértækar aðgerðir er það sem hefur fleytt okkur áfram í baráttu kynjanna. Það eru þær sem feðraveldið og afturhaldssinnar hræðast mest. Við munum aldrei ná fram jafnrétti nema við bítum á jaxlinn og setjum höfuðið undir okkur. Það verður mótvindur á leiðinni en aldrei hefur hann stoppað góðan málstað og baráttuanda. Já ég þori, get og vil.

Greinin birtist á Vinstri þann 23. maí 2009

No comments:

Post a Comment