24.4.09

enn af mútum

Á seinustum vikum hafa Tryggvi Þór, hinn klóki höndlari amerískra undirmálslána hjá Aski Capital, og Bjarni Benediktsson, nýkosinn skiptastjóri þrotabús Sjálfstæðisflokksins, annað slagið migið út í þær óráðshugmyndir Framsóknarmanna að afskrifa skuldir manna og fyrirtækja um 20% Trúlegast vegna þess að þá skortir hugmyndaflug til að finna upp nýstárlegri mútur. Oft er það svo að mútur endurspegla oft álit stjórnmálamanna á gáfnafari kjósenda – man einhver eftir ávísunum sem Sjálfstæðismönnum í Mosfellsbæ (eða var það í Kópavogi?) hugkvæmdist að senda bæjarbúum korteri eða svo fyrir seinustu sveitastjórnarkosningar? Öllu gagnsærri verða múturnar tæpast.

Loforð sem stjórnmálamenn telja bjánaheld hafa oft gagnast óprúttnum pólitíkusum í gylliboðadembunni fyrir kosningar. Þetta eru kaldrifjuð yfirboð sem stighækka eftir því sem nær dregur kosningum. Í flestum tilvikum dæma þær þó sig sjálfar, kjósendamúturnar sem stjórnmálamenn kasta út úr orrustuflugvélum sínum einsog karamellum fyrir barnaskara á jörðu niðri. 20% hugmyndin, sem á rætur að rekja til 100% örvæntingar Framsóknarmanna, fellur í þann flokk án vafa. Þau skuldum vöfðu fyrirtæki sem formenn umræddra flokka tengjast myndu þó án efa fagna framkvæmd slíkra hugmynda. Fólkið í landinu, sem fengi málamyndaupphæð í annan vasann sem væri síðan jafnskjótt tekin úr hinum vasa þess, myndi hins vegar ekki fagna lengi.

Aðrar mútur hafa þó skyggt á kjósendamúturnar að undanförnu, þ.e. mútur þær sem Sjálfstæðisflokkurinn annars vegar og einstakir þingmenn hans hins vegar, hafa þegið á undangegnum misserum undir því yfirskini að um væri að ræða saklausa styrki. Það er ekkert saklaust við gjafir upp á milljónir eða milljónir tuga. Og í tilvikum einstaklinganna er ekki verið að tala um fáeina hundrað þúsund kalla heldur fleiri milljónir króna. Guðlaugur Þór stakk 4 milljónum frá FL Group og Baugi ofan í vasann á prófkjörsjakkanum sínum. Fáeinir þingmenn Samfylkingar hafa illu heilli látist freistast einnig. Steinunn Valdís stakk 4 milljónum frá FL Group og Baugi ofan í prófkjörsveskið sitt. Heiðarlegt fólk hlýtur að gera þá skýlausu kröfu að þessir menn og konur segi af sér, þ.e. víki strax af framboðslistum flokkanna, og endurgreiði styrkina hið fyrsta á núvirði. Ekki bara til að vinna flokkum sínum ekki meira ógagn en raun ber vitni, heldur í þágu þess vandaða siðferðis sem verður að ríkja í íslenskum stjórnmálum ætli þau að öðlast tiltrú kjósenda að nýju. Þingmenn sem þiggja milljónir frá fyrirtækjum sem hafa hagsmuna að gæta á Alþingi eiga að fást við önnur störf. Og fara á námskeið í siðfræði.

No comments:

Post a Comment