16.4.09

Siglum fleyinu saman í átt að jöfnuði

Eftir margra vikna uppreisn fólksins í landinu steig ríkisstjórnin loks af sínum háa stalli. Það gerði hún ekki vegna iðrunar né vegna þess að hún teldi sínum tíma lokið. Ríkisstjórnin vék vegna uppgjafar. Hún gafst upp fyrir lýðræðinu. Og þann dag dró ég andann í fyrsta sinn laus undan oki kapteins blinduðum af hugmyndafræði frjálshyggjunnar.

Orðið frelsi hefur verið sjálfstæðismönnum hugleikið, við eigum að stunda frjálsan markað með frjálsri samkeppni. En það frelsi sem hugmyndafræðin stendur fyrir bitnar á þeim sem minnst mega sín. Sú stéttaskipting, sem frjálshyggjan stuðlar að, er sorgleg. Stuttbuxnadrengirnir virðast kæra sig kollótta um kjör annarra á meðan þeim tekst að græða á daginn og grilla á kvöldin. Ef við ætlum að taka virkan þátt í samfélagi eiga græðgi og óhóf ekki rétt á sér, okkar frelsi á ekki að bitna á frelsi annarra.

Sú ríkisstjórn sem hefur starfað síðastliðna tvo mánuði hefur unnið gríðarlega öflugt verk. Þrátt fyrir mótbárur og málþóf sjálfstæðismanna hafa mörg brýn mál verið afgreidd og ber þar að nefna fjárveitingu til menntamála sem minnka á atvinnuleysi háskólanema. Það borgar sig margfalt fyrir ríkið að veita námslán og auka þekkingu landans í stað þess að dæla út fjármagni til atvinnuleysisbóta. Hvert mannsbarn á að eiga jafnan rétt á menntun óháð efnahag og stöðu. Sú ríkisstjórn sem nú situr stuðlar að þeim jöfnuði. Ríkið á og getur komið til móts við heimilin með þeim hætti að börn og ungt fólk þurfi ekki að finna of mikið fyrir afleiðingum dauðafyllerís drengjanna í næsta húsi. Fyllerí sem kostar þúsundir starfa og skuldir sem seint verða borgaðar til fulls. Hleypum þeim ekki að stjórnborðinu aftur.

Kjósum þá ríkisstjórn sem tilbúin er að vernda velferðina og styrkja atvinnuveginn með fjölbreyttum hætti. Kjósum jöfnuð ofar eiginhagsmunapólitík og vinavæðingu. Notum okkar atkvæði til að koma á því samfélagi sem við viljum búa í. Samfélag þar sem framtíðarsýn og markmið eru skýr.

Þá getum við loksins verið viss um að skipinu verði ekki stýrt í strand vegna hugsanaleysis. Þá vitum við að réttur okkar er sá sami og þeirra á fyrsta farrými. Með Vinstri græn í ríkisstjórn siglum við fleyginu saman með jöfnuð, velferð og samvinnu að leiðarljósi.


Greinin birtist á www.vinstri.is fimmtudaginn 16. apríl

No comments:

Post a Comment