2.3.09

Á sunnudaginn var sat ég frambjóðendakynningu Vinstri grænna í Reykjavík.
Þar stigu á stokk 30 einstaklingar sem gefa kost á sér í forvali hreyfingarinnar. Fjarri góðu gamni var Kolbrún Halldórsdóttir og René Biasone.
Mikið ofsalega var þar fagur hópur á ferð. Samstaðan var mikil og jákvæðnin í fyrirrúmi.
Einstaka frambjóðendur heilluðu mig að sjálfsögðu meira en aðrir og eru hér fyrir neðan í stafrófsröð:

Andrés Ingi Jónsson (f. 1979)
Hann er með BA-gráðu í Heimspeki MA-gráðu í átakafræði frá University of Sussex í Bretlandi.
Ég treysti Andrési Inga til að standa fast á sínum málstað og styrkja grunnstoðir Vinstri Grænna. Hann virkar bæði heill og pottþéttur.

Auður Lilja Erlingsdóttir (f. 1979)
Hún hefur BA-gráðu í stjórnmálafræði og meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu.
Auður er varaþingkona og hefur tvisvar tekið sæti á Alþingi. Hún situr í nýskipaðri stjórn LÍN.
Ég treysti Auði til að berjast fyrir jafnrétti og mannúð í velferðarsamfélaginu. Hún ber hag ungmenna augljóslega fyrir brjósti. Hún er bæði sterk og klár stjórnmálakona með skýra framtíðarsýn.

Brynja Björg Halldórsdóttir (f.1990)
Brynja er menntaskólanemi og lang yngsti frambjóðandinn í ár. Hún er bæði hugrökk og skýr ung kona sem veit hvað hún vill. Brynja er framkvæmdarstjóri Ad Astra sem sér um námskeið fyrir börn frá 11-15 ára sem vilja auka þekkingu sína á sviðum sem venjulega eru ekki opin aldurshópnum.Brynja hefur gegnt starfi formennis höfuðborgarstjórnar Ungra Vinstri Grænna. Brynja er feministi og harður andstæðingur Evrópusambandsins.

Gunnar Sigurðsson (f. 1973)
Hann lýkur námi í stjórnsýslufræðum í vor en hefur unnið margvísleg störf.
Gunnar kemur frá Ólafsvík. Persónulega hef ég lengi beðið eftir einstaklingi sem getur brúað bilið milli landsbyggðar og höfuðborgar en Gunnar hefur búið í Reykjavík í aldarfjórðung. Það er nauðsynlegt að kjörnir fulltrúar séu víðsýnir og beri hag allra stétta fyrir brjósti. Gunnar hefur starfað í fiskiðnaði og útkeyrslu. Hann hefur einnig starfað við framkvæmdastjórn og skrifstofustjórn og unnið í æskulýðsstörfum. Ég treysti Gunnari til að vera víðsýnn og vinna fyrir alla. Hann þekkir vel til og hefur komið víða við.

Katrín Jakobsdóttir (f. 1976)
Katrínu þarf vart að kynna. Hún er starfandi menntamálaráðherra og ég óska þess innilega að hún sitji sem slík áfram eftir kosningar. Hún er útskrifuð með meistaragráðu í íslensku. Katrín er kona sem er nauðsynleg í ríkisstjórn. Hún er róttæk og frökk. Ég treysti Katrínu sem menntamálaráðherra og til að gera enn fleiri breytingar en hún hefur þegar gert því nauðsynlegt er að taka til á mörgum sviðum skólakerfisins.

Kristján Ketill Stefánsson (f. 1979)
Kristján er útskrifaður með meistaragráðu í kennslufræði raungreina frá háskólanum í Osló. Hann er einnig aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Kristján er traustur maður með gríðarlega ákveðin markmið. Kristján hefur verið virkur að gagnrýna menntakerfið á Íslandi og veit svo sannarlega hvað hann talar um. Það skiptir Kristján miklu máli að jafnrétti verði náð í íslenska skólakerfinu. Ég treysti Kristjáni til að berjast fyrir róttækum breytingum á menntakerfinu, hann hefur skýra sýn á hvernig hlutirnir eiga að vera og er raunsær.

Svandís Svavarsdóttir (f. 1964)
Þessi frábæra kona er aldursforsetinn á lista mínum yfir þá frambjóðendur sem ég kýs helst að sjá á þingi. Hún er mikill reynslubolti enda starfað sem borgarfulltrúi í nokkur ár. Svandís er fyrst og fremst klár kona sem fórnar ekki hugsjónum sínum. Svandís fór mikinn í REI-málinu og hefur staðið sig með stakri prýði. Ég treysti Svandísi til að koma sterk inn á Alþingi sem stjórnmálakona með skýr markmið um að betra velferðarsamfélag sé ekki til punts heldur nauðsynlegt.


Ég er hörð á því að nú sé nauðsynlegt að ná ungu fólki inn á þing. Það gengur ekki að alþingismenn komi allir úr sömu stétt og hafi sömu hagsmuna að gæta. Víðsýni kemur með unga fólkinu og ég hlakka til að sjá hvernig því gengur í forvalinu næstkomandi laugardag.

Í kvöld, þriðjudag, verða frambjóðendur ungliðahreyfingarinnar kynntir enn frekar. Fundurinn fer fram á Suðurgötu 3 og hefst á slaginu 19:00.

No comments:

Post a Comment