21.2.09

Óðal feðranna

Það ríkir sannkölluð valentínusar-stemning á Club Óðal þessa dagana.
Í gluggunum hanga bleik hjörtu, og þó ég hafi ekki kannað málið get ég rétt ímyndað mér að stúlkurnar séu ástleitnari en ella.
Súludansmeyjar elska nefninlega vinnuna sína, og hver einn og einasti kúnni gengur út af staðnum með hjartað hart af ást.
Eða hvað?

Hún er ansi brengluð, myndin sem er í höfðum feðra, frænda, afa og einmana manna af stúlkunum á Óðal. Þarna eru ekki hamingjusamar stúlkur á ferð. Dansinn er drifinn áfram af neyð, eiturlyfjum og fjárskorti.
Ég kannast við stelpu sem einu sinni var súludansmær, hennar sýn var einnig brengluð. Hún brenglaðist við augnatillit karlanna og framkomu yfirmannsins.
Sú stúlka hafði lítið sem ekkert sjálfstraust, en þegar hún steig á sviðið leið henni vel. Henni leið vel því allra augu voru á henni og henni tókst að heilla áhorfendurnar, svitinn jókst á ennum karlanna sem réðu sér varla fyrir kæti.
Þegar súludansmeyjan steig af sviðinu sökk hún þó enn dýpra en áður, dansinn borgaði ekki fíknina og fullnægði ekki athyglisþörfinni. Að vera hlutur í augum fólks er bæði niðurlægjandi og niðurbrjótandi. Á endanum gekk hún út með ekki vott af sjálfsvirðingu eða stolti.

Og nú berast fréttir af fermingarstúlkum sem stunda vændi. Það er grafalvarlegt mál að ekki séu nægilegar forvarnir og fræðsla fyrir ungt fólk.
Að sjálfsögðu á frekar að reyna að sporna við vandamálum í stað þess að bíða eftir að inná geðspítala hrúist skemmdar stelpur og strákar sem hafa orðið fíklar fyrir fermingu. Þó kostnaðurinn fyrir ríkið sé líklega það minnsta sem ég hef áhyggjur af, er vel hægt að draga úr honum.
Ég vil bætt samfélag og forsendur fyrir því eru að velferðarkerfið sé sterkt og hlúð sé að einstaklingum frá fæðingu. Það er í hlutverki ríkisins, skólayfirvalda og að sjálfsögðu foreldra að
byggja sterka og trausta einstaklinga. Þær ríkisstjórnir sem setið hafa síðustu sautján árin, með sjálfstæðisflokk í broddi fylkingar, hafa hugsað skammt fram í tímann. Aðal áhersluefnið ar að klára nægilega mörg verkefni til að hægt væri að tönnslast á þeim í komandi kosningabaráttu. Sjálfstæðismenn virðast ekki gera sér grein fyrir þeim vandamálum sem skapast fyrr en of seint, og þá er það undir einkavæddum stofnunum að redda málunum.
Ef við byggjum trausta einstaklinga er keðjuverkunin augljós. Komandi kynslóðir verða heilli og hamingjusamari.
Og nei, ég á ekki við að þá myndum við eiga hamingjusamari hórur. Þær eru nefninlega engar.

Hluti af forvarnafræðslunni er að sjálfsögðu að viðhorf karla breytist einnig til vændis (ég nefni karla því kaupendur vændis eru í svo gríðarlegum meirihluta karlar). Karlar verða að gera sér grein fyrir kvenfyrirlitningunni og skepnuskapnum sem þeir sýna með kaupum á vændi eða glápi á súludansmeyjar. Þó þær stúlkur sem starfi í þeim geira brosi við þeim. Það er nauðsynlegt að almennt viðhorf til vændis sé neikvætt og allir skilji hver neyðin sé sem drífur starfsemina áðar.
Kaup á vændi eiga að sjálfsögðu að vera gerð refsiverð. Því í íslenskum lögum á ekki að vera leyft að niðurlægja, svívirða og þrífast á eymd annarra.






No comments:

Post a Comment