18.2.09

Feminismi

"Hvað hugsar þú þegar þú heyrir orðið feministi?"

Spurning sem mér þótti þörf að bera upp á meðal jafningja og jafnaldra. Og svörin stóðu ekki á sér:

"orðið er tímaskekkja"

"Ingibjörg Sólrún"

"Sóley Tómasdóttir"

"Einstaklingur sem:
1) Gerir sér grein fyrir misrétti kynjanna
2) Er tilbúinn að leggja sig fram við að berjast gegn því misrétti"

"kona sem ber réttindi kvenna fyrir brjósti"

"kvenismi, neikvæð öfgafull merking"

"kellingin sem gagnrýndi klám Smáralindarbæklinginn var að kenna mér og hún var feministi, ég HATA hana"

"ég hugsa um leiðinlegan öfgafeminista..sem finnst að karlar eigi ekki að vera til og hefur ekki hugmynd um hvað jafnrétti er. ég veit samt að það eru bara nokkrar svoleiðis týpur..en þær hafa verið áberandi og ég veit líka að það eru til alvöru feminstar sem berjast fyrir jafnrétti..sem er mjög gott og blessað."

"kvenrembur og leiðindi"

"tjellíng með sand í píkunni sem hefur aldrei fengið fullnægingu með karlmanni"

vinur minn vitnaði í Pat Robertson: "The feminist agenda is not about equal rights for women. It is about a socialist, anti-family political movement that encourages women to leave their husbands, kill their children, practice witchcraft, destroy capitalism and become lesbians." Vinurinn var sem betur fer að grínast.

Ég hef rekist á það í spjalli mínu við vini og kunningja að viðhorf til orðsins feministi er ekki jákvætt. Mín kynslóð virðist forðast að nota orðið, og ég viðurkenni að áður en ég steig inn í ungliðahreyfingu vinstri grænna átti ég erfitt með að titla mig feminista.
Ég leyndi þó ekki skoðunum mínum. Ég vil að sjálfsögðu fullan rétt kvenna og fyrirlít þá staðreynd að í félagsfræðilegum skilningi erum við konur minnihlutahópur.
Orðið virðist kalla fram hroll í hugum margra. Stelpur neita statt og stöðugt að vera feministar og strákana þarf varla að tala um. Karl-feministar eru jafnvel kallaðir hommar eða veimiltítur.
Hvenær breyttist merking þessa fallega orðs í hrylling?
Allar hugsjónir er hægt að fara með í öfgar og vissulega getur verið að ákveðnir feministar hér á landi hafi gert slíkt. En hvað er öfga-feminismi? Ég álít það svo sannarlega ekki öfgar að vilja jafnrétti kynjanna. Ég álít það ekki öfgar að jöfnu kynjahlutfalli sé haldið í stjórnum fyrirtækja eða á framboðslistum stjórnmálaflokka. Það eru ekki öfgar í mínum augum að gagnrýna það veldi karlmanna sem oft virðist ríkja og hvernig konur sem þykja hæfari en aðrir umsækjendur starfa séu ekki ráðnar vegna kynferðis þeirra.
Mér persónulega þykir rakstur undir höndum og brjóstahaldaraleysi ekki tengjast feminisma á neinn hátt. Og þó eru það algengustu lýsingar ungmenna á feministum.

Á Íslandi ríkja fordómar líkt og í öllum öðrum löndum. Fordómar gagnvart kynþætti, kynhneigð, trú, geðsjúkdómum... listinn er endalaus.
Hinn "eðlilegi" einstaklingur gerir sér oftast grein fyrir því að fordómar mæta einnig miklum fordómum. Það þykir ekki falleg sál sem níðir aðra kynstofna eða aðra sem ekki ráða hlutskipti sínu. Þó virðist það lifa góðu lífi að níða fólk fyrir skoðanir sínar og hugsjónir.
Ég lýsi mig seka, ég ber litla virðingu fyrir hugmyndafræði kapitalista. Ég á bágt með að skilja hvernig fólk heldur á lofti hugmyndum sem byggja á ójafnrétti og græðgi. Samt lít ég ekki endilega á kapitalistana sem minni menn, jú þeir eru örlítið vitlausari og óskynsamari, en vondir menn eru þeir ekki.
Þessvegna er mér fyrirmunað að skilja viðhorf margra til feminista. Afhverju eru margir feministar sakaðir um að vera karlhatarar en and-feministar fá seint stimpilinn að vera kvenhatarar?

Orðið jafnréttissinni mætir talsvert minni mótbárum. Og vissulega er það víðtækara, ég vil jafnrétti allra. Ekki bara á milli karla og kvenna.
Er orðið feministi tímaskekkja?

1 comment: